Fjórði hlýjasti desembermánuðurinn

Bolungarvík í vetrarskrúða, en nýliðinn desember var einn sá hlýjasti frá upphafi mælinga samkvæmt veðurmælum þar í bæ.

Hlýtt var í veðri á landinu nýliðinn desembermánuð og var tíðin lengst af hagstæð er Veðurstofan greinir frá. Um austanvert landið var mánuðurinn sums staðar sá hlýjasti frá upphafi mælinga og í hópi þeirra hlýjustu um land allt. Úrkomusamt var og dimmt. Ekki var mikið um illviðri að undanskildum fáeinum hvössum dögum undir lok mánaðarins og urðu þá nokkrar samgöngutruflanir. Þá kólnaði nokkuð og var snjór á jörðu um allt land að kalla yfir jólahátíðina. En þann snjó tók þó fljótt upp aftur víðast hvar á láglendi.

Í Bolungarvík var meðalhitinn 2,7 stig og er það 3,6 gráðum hærra en að jafnaði sem gerir þennan desembermánuð að þeim fjórða hlýjasta síðustu 119 árin, sé litið til síðasta áratugar var mánuðurinn 2,7 stigum hlýrri. Meðalhiti í Reykjavík mældist 3,6 stig og er það 3,8 stigum ofan meðalhita áranna 1961 til 1990, en 3,2 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 2,8 stig, 4,7 stigum ofan meðallags 1961 til 1990 og 3,8 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 3,0 stig og 4,0 stig á Höfn í Hornafirði.

Vindhraði var í ríflegu meðallagi, um 0,3 m/s umfram meðallag síðustu tíu ára á sjálfvirkum stöðvum Veðurstofu Íslands. Suðlægar áttir voru mun algengari og stríðari en þær norðlægu.

annska@bb.is

DEILA