Engar uppsagnir hjá HG

Engar uppsagnir hafa verið hjá Hraðfrystihúsinu Gunnvöru í Hnífsdal vegna verkfalls sjómanna sem staðið hefur hátt í mánuð og verið þess valdandi að margar fiskvinnslur á landinu hafa gripið til þess ráðs að segja upp landverkafólki tímabundið vegna skorts á hráefni. Kristján G. Jóakimsson vinnslustjóri hjá HG segir að starfsfólki þeirra hafi verið boðið að sitja námskeið í verkfallinu, jafnframt því sem frá desemberlokum hafi verið eitthvað um vinnslu á eldisfiski, en búið er að slátra á annað hundrað tonnum úr fiskeldiskvíum frá desemberlokum. Kristján segist í ljósi þess að samningafundir séu daglega um þessar mundir, vera vongóður um að brátt sjái fyrir lok verkfallsins.

Um sextíu manns vinna í vinnslum HG í Hnífsdal og Ísafirði og hafa flestir þeirra setið námskeið á vegum Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða í verkfallinu, en að námskeiði loknu öðlast þeir starfsheitið sérhæfður fiskvinnslumaður. Í náminu er farið í sjálfstyrkingu, samskipti, fjölmenningu, öryggismál, kjarasamninga, gefin yfirsýn yfir greina sem og markaðsmál og síðast en ekki síst er farið ítarlega í gæðamál og meðferð matvæla.

annska@bb.is

DEILA