Vestfirskt landslag leikur stórt hlutverk í nýrri heimildarmynd „Under an Arctic sky“ sem könnuðurinn og ljósmyndarinn Chris Burkard vinnur í samstarfi við kvikmyndagerðamanninn Ben Weiland. Ekki er það einungis landslagið sem hefur heillað kvikmyndagerðarmennina. Í upphafsatriði stiklu úr myndinni sem birt var í gær, má sjá og heyra skipstjórann Sigurð Jónsson, segja frá því hvernig hafið stjórni öllu í kringum okkur og ávallt sé það náttúran sjálf sem sitji við stjórnvölinn þrátt fyrir að við leggjum okkur fram um vel skipulagða leiðangra líkt og brimbrettakapparnir sem fylgt er eftir í myndinni leggja upp í.
Í stiklunni má sjá mögnuð myndskeið af mönnunum glíma við ískaldar öldur norður-Atlantshafsins og fást við íslenskan vetur líkt og hann gerist verstur, en þeir voru við tökur hér á landi í desembermánuði 2015 er mikið óveður gekk yfir landið. Ferðuðust þeir félagar bæði á láði og legi og var skútan Aurora farkostur félaganna á hinu síðarnefnda og má oft sjá hana bregða fyrir.
Í kynningartexta segir að myndin fjalli um sex brimbrettakappa sem sigli meðfram frosnum Íslandsströndum, vitandi að versti stormur sem komið hafi í aldarfjórðung sé á leiðinni. Með því að þrauka endalaust myrkur og úfið haf hafi þeir fundið hinar fullkomnu öldur og skráð sig í sögubækur fyrir að standa á brimbrettum undir norðurljósunum.
Stikluna í heild sinni ásamt frekar upplýsingum um myndina má sjá hér.