Tangi, ný leikskóladeild 5 ára barna á Ísafirði, tekur til starfa í næstu viku. Í morgun komu börn af leikskólunum Eyrarskjóli og Sólborg ásamt kennurum að skoða nýja skólann sinn og var mikil eftirvænting í hópnum er kíkt var í hvern krók og kima á hinum nýju húsakynnum þeirra sem eru í kjallara Tónlistarskóla Ísafjarðar, rétt við grunnskólann, þar sem þau munu svo setjast á skólabekk í haust. Það er heilmikið pláss í Tanga, 300 m², rúmgóð fatageymsla, tvær stofur fyrir hópastarf, salur, aðstaða fyrir starfsfólk og móttökueldhús, en börnin munu snæða hádegisverð í sal Grunnskólans á Ísafirði. Útiaðstaða barnanna verður skólalóð G.Í. ásamt öðru svæði í nágrenninu.
Starfsemi Tanga hefst fimmtudaginn 19.janúar, en á mánudag fara börnin aftur í heimsókn og munu þau í næstu viku taka þátt í því að aðstoða við flutninga áður en þau flytja formlega yfir á fimmtudaginn. Sólborg rekur Tanga, líkt og leikskólinn gerði í tilfelli Eyrarsólar. Á deildinni verða 45 börn og Jóna Lind Kristjánsdóttir verður deildarstjóri.
Það er verktakafyrirtækið Gamla spýtan á Ísafirði sem hefur haft yfirumsjón með verkinu og hafa menn þar haft í nægu að snúast síðastliðna tvo mánuði við að umbreyta kjallara T.Í. í þá aðstöðu sem nú er þar að finna. Magnús H. Jónsson framkvæmdastjóri bauð börnin velkomin í morgun og færði þeim tafl í innflutningsgjöf, í framhaldi af því sungu börnin þrjú lög undir stjórn Málfríðar Hjaltadóttur, við undirleik bróður hennar Guðmundar Hjaltasonar; Góða ferð, Ég er kominn heim og í leikskóla er gaman. Þá fengu börnin sér kringlur og kókómjólk og dvöldu um stund á nýja staðnum áður en þau héldu aftur á leikskólana sína.
Með tilkomu Tanga hefur verið hægt að bjóða mikið af nýjum nemendum inn á Eyrarskjól og Sólborg, en mikil köllun hefur verið eftir leikskólaplássi á Ísafirði og eru yngstu börnin sem fengið hafa pláss 16 mánaða gömul.