Aukning í virðisaukaskattskyldri veltu

Velta í virðisaukaskattskyldri starfsemi, fyrir utan ferðaskrifstofur og farþegaflutninga á vegum, í september og október 2016 nam 669 milljörðum króna, sem er 4% aukning miðað við sama tímabil árið 2015. Á síðustu 12 mánuðum er aukningin 5% samanborið við 12 mánuði þar áður er frá greinir á vef Hagstofu Íslands. Velta í allri virðisaukaskattskyldri starfsemi nam 688 milljörðum króna í september og október 2016. Starfsemi tengd farþegaflutningum og ferðaskrifstofum var ekki virðisaukaskattskyld fyrr en í ársbyrjun 2016 og verður að taka tillit til þess þegar velta ársins 2016 er borin saman við fyrri ár.

Við birtingu fréttar hjá Hagstofunni í nóvember var velta í virðisaukaskattskyldri starfsemi í júlí og ágúst 2016 talin vera 749,3 milljarðar sem var 12,9% hækkun frá sömu mánuðum árið 2015. Nú hafa nýrri tölur borist og velta í virðisaukaskattskyldri starfsemi á þessu tímabili er talin vera 751,2 milljarðar sem er 13,2% hækkun frá sömu mánuðum árið 2015. Í ársbyrjun 2016 tóku einnig gildi breytingar á vörugjöldum sem veldur í kjölfarið hækkun á virðisaukaskattskyldri veltu.

annska@bb.is

DEILA