Ásakanir ganga á víxl

 

Samninganefndir sjómanna, Sjómannasambands Íslands, Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur, Verkalýðsfélags Vestfirðinga og Sjómannafélags Íslands lýsa í yfirlýsingu yfir vonbrigðum með að slitnað hafi upp úr viðræðunum og vísa því til föðurhúsanna að það sé á ábyrgð sjómanna. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafi ekki treyst sér til „að koma til móts við sanngjarnar og réttlátar kröfur sjómanna til lausnar deilunni,“ að því er fram kemur í yfirlýsingu samtaka sjómanna.

Þar segir jafnframt að samskipti milli samninganefndanna hafi verið til fyrirmyndar og þær hafi náð ágætlega saman. Góður árangur hafi náðst í nokkrum kröfum að mati samninganefndanna. „Útvegsbændur eru ekki tilbúnir að koma til móts við meginkröfur sjómanna og þess vegna er málið komið á það stig að viðræður eru strand,“ segir í yfirlýsingu samtaka sjómanna.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi segja að sjómenn víkist undan ábyrgð í kjaradeilunni. Sjómannasamband Íslands, Sjómannafélag Íslands og VM, Félag vélstjóra og málmtæknimanna, hafi ákveðið að slíta viðræðunum eftir rúmlega klukkustundar fund í gær.

SFS telur ábyrgð þeirra ríka og miklir hagsmunir séu undir. Menn geti ekki leyst sig undan því verkefni að ná ásættanlegum samningi með því að ganga frá samningaborði.

smari@bb.is

DEILA