Flugfélag Íslands er þegar farið að gera ráðstafanir vegna boðaðs verkfalls flugfreyja eftir viku. Allt innanlandsflug á vegum Flugfélagsins leggst niður í þrjá daga ef ekki nást kjarasamningar. Rúmt ár er síðan kjarasamningur Flugfreyjufélags Íslands og Flugfélags Íslands rann út og á þeim tíma hafa samninganefndir tvívegis náð samningum sem félagsmenn í Flugfreyjufélaginu hafa fellt. „Það er ekki hægt að segja að það miði neitt, það hafa verið haldnir þrír fundir síðan samningurinn var felldur síðast og það hefur ekkert verið komið til móts við kröfur okkar síðan þá,“ er haft eftir Sturlu Óskari Bragasyni, varaformanni samninganefndar Flugfreyjufélagsins, á vef Ríkisútvarpsins.
Ef samningar nást ekki skellur verkfallið á föstudaginn 27. janúar og stendur til sunnudags 29. janúar. Flugfreyjur hafa farið fram á ákveðna kjarabót sökum breyttra aðstæðna í flugi vegna nýrra véla. Flugfreyjur hyggjast leggja niður störf frá og með 8. febrúar náist ekki samningar fyrir þann tíma og hefja ekki vinnu að nýju fyrr en kjarasamningur hefur verið undirritaður. Samningur flugfreyja við Wow Air er einnig útrunninn og hafa þær samninganefndir fundað einu sinni.
smari@bb.is