Afli íslenskra skipa árið 2016 var 1.069 þúsund tonn sem er 247 þúsund tonnum minna en landað var árið 2015. Samdrátt í aflamagni á milli ára má nær eingöngu rekja til minni loðnuafla en ríflega 101 þúsund tonn veiddust af loðnu á síðasta ári samanborið við tæp 353 þúsund tonn árið 2015. Þetta kemur fram í tölum Hagfstofu Íslands. Samdráttur í afla uppsjávartegunda var 32% á milli ára en alls veiddust tæp 576 þúsund tonn af uppsjávartegundum. Botnfiskafli nam 457 þúsund tonnum á síðasta ári sem er 4% aukning miðað við fyrra ár. Að venju er þorskaflinn uppistaðan í botnfiskaflanum en tæp 264 þúsund tonn veiddust af þorski á síðasta ári sem er 8% meira en árið 2015. Flatfiskaflinn var svipaður á milli ára og var tæp 24 þúsund tonnum á síðasta ári. Afli skel- og krabbadýra nam 12,7 þúsund tonnum sem er jafngildir 26% aukningu miðað við árið 2015.
Í desembermánuði var fiskaflinn rúm 59 þúsund tonn sem er 20% meiri afli en í desember 2015. Aukið aflamagn í desember skýrist af auknum uppsjávarafla, en afli uppsjávartegunda, kolmunna og síld, var 15 þúsund tonnum meiri en í desember 2015. Samdráttur varð hinsvegar í öðrum aflategundum, botnfiskafli dróst saman um 14%, flatfiskafli um 41% og skel- og krabbadýraafli um 28%.
Þrátt fyrir aukið aflamagn í desember má gera ráð fyrir að verðmæti aflans í desember hafi dregist saman um 5,5% sem skýrist af aflasamdrætti verðmætari tegunda.
smari@bb.is