Á föstudag gengur þorrinn í garð og upphefst þá mikil samkomutíð á Íslandi er landsmenn koma saman og blóta þorra. Algengasta samkomuformið eru þorrablótin sívinsælu þar sem gestir koma saman með misvel lyktandi þjóðlega rétti í trogi. Þá er sungið, gjarnan heimatilbúnar gamanvísur um náungann, og dansað. Nemendur í 10.bekk Grunnskólans á Ísafirði hafa um langa hríð komið saman á þorrablóti og það munu þau gera á bóndadaginn á föstudag, ásamt foreldrum sínum eða forráðamönnum og starfsfólki skólans.
Á þorrablótinu verða gömlu dansarnir stignir undir harmonikkuleik og hafa nemendur verið við æfingar hjá Evu Friðþjófsdóttur danskennara á öllum helstu sporunum. Á meðfylgjandi mynd af heimasíðu Grunnskólans á Ísafirði má sjá 10.bekkingana æfa hringdans og virðast þau klár í slaginn að sýna listir sínar og bjóða mömmu og pabba upp í dans á föstudagskvöldið.