Lýður Árnason, fyrir hönd Stútungs ehf á Flateyri, hefur falast eftir því við bæjarráð Ísafjarðarbæjar að útgerðum á Flateyri verði veitt heimild til að landa afla sínum annars staðar innan bæjarfélagsins. Þetta kemur fram í bréfi til bæjarráðs sem sent var þann 21. nóvember og tekið var fyrir á síðasta bæjarráðsfundi, mánudag.
Í bréfinu segir að á fiskveiðiárunum 2014-2015 hafi útgerðum á Flateyri verið heimilt að landa fiski innan bæjarfélagsins þar sem engin fiskvinnsla var starfrækt á Flateyri. Þannig hafi útgerðir safnað mótframlagi upp í sinn byggðakvóta og hafi það reynst vel. Á síðasta fiskveiðiári 2015-2016, hafi þetta hins vegar ekki verið leyfilegt þar sem komin var fiskvinnsla á Flateyri.
Lýður segir þetta hafa valdið því að byggðakvóti hans hafi brunnið inni vegna þess að ekki hafi tekist að fiska upp í mótframlagið. Hann segir vandamálið felast í því að Fiskvinnsla Flateyrar hefur einhliða ákveðið löndunarstopp sem hefur þvingað menn til að vera í landi eða landa á markað og fá þá ekkert metið sem mótframlag. Hann segir Fiskvinnslu Flateyrar hafa einhliða neitað móttöku afla eftir þyngd sem gerir að verkum að hluti fer á markað og er þá ekki metinn upp í mótframlag.
Þá segir í bréfinu að ákvörðun bæjarstjórnar þvingi útgerðir til að skipta aðeins við einn aðila: „Fiskvinnsla Flateyrar tók nánast ekkert við öðrum fisktegundum en þorski á síðasta fiskveiðiári sem nýtast þá heldur ekki sem mótframlag. Við höfum skilning á þessari tilhögun Fiskvinnslu Flateyrar en hún kemur óhjákvæmilega niður á útgerðinni. Sú ákvörðun bæjarstjórnar að hamla löndun annarsstaðar í bæjarfélaginu þvingar útgerðir á Flateyri til að skipta aðeins við einn aðila og lúta hans ákvörðunum þó þær gangi þvert á þeirra hagsmuni. Þetta er afar mótsagnakennt í ljósi þess að aðrar útgerðir í bæjarfélaginu fá byggðakvótaviðmiðun á Flateyri þó þær landi annarsstaðar í bæjarfélaginu.“
Til að bæta stöðu útgerða á Flateyri leggur Lýður fram á við bæjarstjórn, að útgerðum á Flateyri verði heimilt að landa afla sínum á aðrar fiskvinnslur innan bæjarfélagsins.
Í svari bæjarráðs segir að ráðið bendi á að byggðakvóta sé ætlað að efla fiskvinnslu í þeim byggðakjarna sem kvótanum er úthlutað til. Reglur um byggðakvóta séu þó í umsagnarferli hjá Ísafjarðarbæ og verði athugasemdirnar hafðar til hliðsjónar við þá vinnu.