Í frétt á mbl.is er greint frá því að Málsóknarfélagið Náttúruvernd 1 hafi birt Arnarlaxi hf., Matvælastofnun og Umhverfisstofnun stefnu þar sem krafist er ógildingar rekstrar- og starfsleyfa sem gefin voru út á þessu ári vegna sjókvíaeldis á norskættuðum laxi í Arnarfirði. Málsókn hefur verið í undirbúningi um hríð en fjallað var um hana í október.
Að Náttúruvernd 1 standa meðal annars eigendur veiðiréttinda í lax- og silungsveiðiám. Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 10. janúar. Frekar um málsóknina má lesa hér.
Í dag kynnir Arctic Sea Farm hf, áður Dýrfiskur, tillögu sína að matsáætlun fyrir framleiðsluaukningu á laxi í Ísafjarðardjúpi. Fyrirtækið hefur leyfi fyrir 4.000 tonna eldi á silungi en sækir nú um breytingu á því leyfi yfir í lax og bætir um betur með aukningu upp í um það bil 8.000 tonna laxeldi samtals.
Leiða má að því líkum að lyktir máls hvað varðar Málsóknarfélagið Náttúruvernd 1 gagnvart Arnarlaxi, Matvælastofnun og Umhverfisstofnun muni vera fordæmisgefandi og annað hvort festa atvinnugreinina í sessi eða hindra framgang hennar.