Skuggsjá gerir það gott

Stuttmyndin Skuggsjá sem tekin var upp á Hvilft í Önundarfirði á fyrr á þessu ári er nú komin í sýningar á kvikmyndahátíðum og fer sú för hennar vel af stað. Myndin vann á dögunum til verðlauna á tveimur íslenskum kvikmyndahátíðum, á Gullmolanum, stuttmyndahátíð Kópavogs og á alþjóðlegu hryllingsmyndahátíðinni Frostbiter, sem haldin var á Akranesi í nóvember.

Skuggsjá er útskriftarmynd Magnúsar Ingvars Bjarnasonar frá Kvikmyndaskóla Íslands og sá hann um tökur myndarinnar. Flateyringurinn Eyþór Jóvinsson sá hinsvegar um leikstjórn og einnig skrifaði hann handritið, sem byggir á sögu Magnúsar. Leikarar eru þau: Guðrún Bjarnadóttir, Ársæll Níelsson og Víkingur Kristjánsson.

Skuggsjá er hrollvekjandi spennumynd með gamansömu ívafi. Hún segir af tveimur félögum sem ákveða að heimsækja heimili nýlátins afa annars þeirra. Þar komast þeir að því að í lífi hans leyndist fiskur undir steini.

annska@bb.is

DEILA