Heimildarmynd um Fjallabræður

Fjallabræður syngja

Í kvöld verður sýnd heimildarmynd um Vestfirska kallakórinn Fjallabræður. Myndin verður sýnd í Háskólabíó klukkan 18:30. Fjallabræður fóru til London í haust og tóku upp nýjustu plötu sína í hinu fornfræga hljóðveri Abbey Road. Framleiðslufyrirtækið Republik var með í för og er heimildarmyndin, Þess vegna erum við hér í kvöld, um þessa frægðarför þessa einstaka hóps.

„Hugmyndin kviknaði þegar við hjá Republik heyrðum af því að til stæði að kórinn tæki upp í Abbey Road. Jón Þór, stóri bróðir Fjallabræðra, hefur unnið með okkur og komið inn í verkefni – hann sagði okkur frá hugmyndinni að fara í Abbey Road. Við bitum strax á agnið og hugmyndin of góð til að taka ekki þátt á einhvern hátt,“ segir Hannes Friðbjarnarson framleiðandi myndarinnar.

„ Við byrjuðum að fylgjast með þeim síðasta sumar, elta þá á æfingar og tónleika, taka viðtöl við meðlimi kórsins, mynda þá og fórum svo með þeim út í haust. Myndin er um Abbey Road ferðina sem slíka, inn í það blandast saga kórsins, hvaða týpur eru í kórnum og hvað það þýðir að vera Fjallabróðir,“ bætir Hannes við.

Myndin verður sem fyrr sagði sýnd í Háskólabíó í Reykjavík. Aðspurður hvort myndin verði sýnd á Vestfjörðum segir Hannes það vera stefnuna: „Okkur langar auðvitað mjög að sýna hana fyrir vestan. Bróðurparturinn af kórnum er frá Vestfjörðum og stefnan er að byrja að vinna í því strax eftir áramót að finna út úr sýningartíma og stað, væntanlega á Ísafirði.“

brynja@bb.is

DEILA