
Félag Pólverja á norðanverðum Vestfjörðum heldur á sunnudag jólaball fyrir yngstu kynslóðina. Hafa verið haldin slík jólaböll árlega um nokkra hríð og reynt að miða við að halda það þann 6.desember, á degi heilags Nikulásar eða sem næst honum, því það er dagurinn sem jólasveinninn heilagur Nikulás heimsækir börn í Póllandi. Heilagur Nikulás líkt og jólasveinarnir íslensku geta stundum komið í heimsókn á tímum sem þeir eru annars ekki í byggðum og ætlar Nikulás að sjálfssögðu að heimsækja börnin á jólaballinu.
Í fjölmenningasamfélaginu á Vestfjörðum eru Pólverjar stærsti innflytjendahópurinn og öflugir þátttakendur í að byggja upp það auðuga samfélag sem hér þrífst. 57 börn hafa boðað komu sína á jólaballið ásamt fjölskyldum sínum og því nokkuð ljóst að það verður mikið fjör er dansað verður í kringum jólatréð og jólasöngvarnir sungnir í Edinborgarhúsinu á sunnudag.