Nemendur á efsta stigi við Grunnskólann á Ísafirði frumsýna í dag leikritið Feita mamma eftir Auði Jónsdóttur á fullveldisfagnaði 10.bekkjar. Sýningin í dag verður fyrir nemendur í 8.10.bekk G.Í. og nágrannaskóla og eftir sýninguna verður slegið upp balli í skólanum. Á morgun laugardag, klukkan 14, verður svo sýning öllum opin í sal grunnskólans.
Feita mamma segir af því er Álfur platar mömmu sína til að taka þátt í fáránlegri keppni um hver eigi feitustu mömmuna, í tilefni þess að það er verið að frumsýna kvikmyndina Feita mamma 3. Honum hugkvæmdist þetta fyrir áeggjan félaga sinna, sem eru þarna líka ásamt mæðrum sínum, en í ljós kemur að það sem raunverulega knýr hann áfram er söknuður eftir mömmunni, sem berst við þunglyndi eftir skilnað, höfnun sem hann hefur upplifað við að pabbi hans tók saman við nýja konu með börn – og þráin eftir viðurkenningu Ástu, stelpunnar sem hann er skotinn í.
Það eru tveir valhópar við Grunnskólann á Ísafirði sem standa að baki sýningunni. Leiklistarvalið, sem hefur það að markmiði að setja upp sýningu fyrir fullveldishátíð skólans. Það er margt sem komið er inn á í áfanganum, líkt og: Leikhústækni, framsögn, hreyfing, tjáning, þolinmæði, áræðni, þrautseigja, samvinna, sjálfsstyrking, tjáningarþor, leikmyndargerð, leikmunagerð og búningahönnun. Það er Ása Einarsdóttir sem kennir í leiklistarvali og telur áfanginn um 80 klukkustundir, sem hún segir algjört lágmarks vinnuframlag hvers og eins þegar setja á upp stórkostlega sýningu.
Hinn hópurinn sem kemur að sýningunni er tækniráðið sem er í umsjón Evu Friðþjófsdóttur. Markmið með þeim valáfanga er að nemendur læri helstu þætti ljósa- og hljóðvinnu og gert er ráð fyrir að nemendur í tækniráði sjái um tæknimál á viðburðum skólans.