Málefni fatlaðra best unnin í samvinnu allra sveitarfélaganna

Vestfirðir.

Fram kom í bókun frá síðasta bæjarráðsfundi Ísafjarðarbæjar að bæjarráð fæli bæjarstjóra að ræða við framkvæmdastjóra Byggðasamlags Vestfjarða um málefni fatlaðs fólks, um þann möguleika að Ísafjarðarbær taki yfir þjónustu við fatlað fólk í sveitarfélaginu. Stór hluti þjónustunnar hefur verið í höndum BSVest. Ef af þessu yrði þýddi það að Ísafjarðarbær drægi sig út úr samstarfi um málefni fatlaðs fólks, en Ísafjarðarbær er sem stendur stærsta sveitarfélagið í Byggðasamlaginu.

Pétur G. Markan sveitastjóri í Súðavík segir Súðavíkurhrepp ekki sjá ástæðu til að skoða breytingar að svo stöddu: „Súðavíkurhreppur er ekki að skoða sýna stöðu innan byggðasamlagsins, enda er það afstaða sveitarfélagsins að málefni fatlaðaðra séu best unnin í samvinnu allra sveitarfélaga á Vestfjörðum.  Með það að leiðarljósi, það er besta mögulega þjónusta sem völ er á, er engin ástæða til að skoða einhverjar breytingar.“

Friðbjörg Matthíasdóttir, starfandi bæjarstjóri Vesturbyggðar tekur undir með Pétri og segir að ef til breytinga komi gæti það verið tímafrekt ferli: „Til þess að Ísafjarðarbær geti tekið til sín þjónustuna þurfa þeir að segja sig úr byggðasamlaginu eða sveitarfélögin að taka ákvörðun um að slíta því. Það tekur drjúgan tíma. Ég tel að við getum vel sinnt þessu verkefni með sama hætti og við höfum gert hingað til, hvort heldur sem það verður á okkar forsendum eða í byggðasamlagi með öðrum sveitarfélögum á Vestfjörðum, en þetta hefur ekki verið rætt formlega hjá okkur.“

Pétur segir mikilvægt að hafa gæði  þjónustunnar í forgangi: „Hins vegar hefur Súðavíkurhreppur haft skoðun á rekstri byggðasamlagsins, eins og öllum öðrum rekstri sem sveitarfélagið kemur nálægt. Það breytir ekki afstöðu sveitarfélagsins, sem er að málaflokkurinn á að vera í því formi sem getur veitt bestu þjónustuna, sem er í þessu tilfelli byggðasamlag, þar sem sveitarfélögin taka höndum saman um þjónustuna.“

brynja@bb.is

DEILA