Allt er í heiminum afstætt, meðan bæjaryfirvöld Ísafjarðarbæjar standa í ströngu við hagsmunagæslu fyrir sveitarfélagið í heild gagnvart yfirvöldum fyrir sunnan þurfa minni samfélög að standa í hagsmunagæslu gagnvart bæjaryfirvöldum hér.
Á sama deginum ákveða bæjaryfirvöld að funda með Flugfélagi Íslands vegna lélegrar þjónustu við svæðið og gæta þar með hagsmuna okkar fyrir vestan, og þau ákveða að flytja flateyrsk börn úr frábæru og sérhönnuðu leikskólahúsnæði í lélegt húsnæði og kalla það aðgerð til að bæta faglegt starf skóla. Í þokkabót ákveða bæjaryfirvöld, algjörlega án samráðs við Flateyringa, að Grænigarður verði seldur. Grænigarður var gjöf Færeyinga til Flateyringa eftir snjóflóðið 1995, sérhannað hús fyrir leikskólastarf og er í hugum bæjarbúa tákn fyrir þann samhug og hjálp sem þorpinu barst eftir snjóflóð. Og þessar ákvarðanir eru teknar fullkomlega án samráðs við þá sem málið varða, kennara sem komu af fjöllum, foreldra sem var lofað í vor að þetta stæði ekki til og yrði aldrei gert án samráðs og bæjarbúa.
Samhljóða samþykkja allir bæjarfulltrúar Ísafjarðarbæjar, sem allir eru búsettir á Ísafirði, að flytja leikskólabörn Önfirðinga úr frábæru húsnæði í miklu verra og óhentugra húsnæði og ræða þar hvorki við kóng né prest. Kynna engar teikningar eða hugmyndir að breytingum, ræða ekki við hverfisráð sem þó er til þess gert að vera milligönguaðili milli ísfirskrar bæjarstjórnar og íbúa Flateyrar. Og samhljóða ákveða bæjarfulltrúar, sem eins og áður kemur fram eru allir búsettir á Ísafirði að Grænigarður, gjöf til Flateyringa, verði seldur til óviðkomandi. Ætli myndi ekki heyrast hljóð úr horni ef hingað kæmi valdboð að sunnan um að í gamla sjúkrahúsið, hið fagra safnahús, eigi að koma fangelsi eða hótel. Eða valdboð um að Sundhöll Ísafjarðar skuli seld og þar eigi að koma fiskvinnsla eða hamborgarabúlla.
Flateyringar eru seinþreyttir til vandræða, póstinn póstleggja þeir bara á Ísafirði því ekkert er pósthúsið. Skotsilfur þurfa þeir að eiga undir koddanum eftir að Landsbankinn yfirgaf þorpið með illa skrifuðum miða í glugganum um lokun að eilífu. Innheimtustofnum sem ætlað var að auka fjölbreytni í atvinnulífinu færðist þegjandi og hljóðalaust yfir til höfuðbólsins. Elstu menn eru farnar að gleyma hvenær síðast mætti læknir í vikulegan opnunartíma heilsugæslunnar á Flateyri. Meira að segja sóknarpresturinn hljópst á brott. Þessu hafa íbúar Flateyrar tekið með jafnaðargeði enda það mikilvægasta aldrei af þeim tekið, en það er samheldnin, hlýleikinn og óendanlega falleg fjallasýn.
En Grænigarður eru íbúunum mikilvægur og þar ætla þeir að fóstra litlu börnin sín, punktur.
Bryndís Sigurðardóttir
Flateyringur