Um hundrað kennarar hafa sagt upp störfum á Suðvesturhorni landsins, flestir í Reykjanesbæ og í Breiðholti í Reykjavík. Uppsagnir virðast haldast í hendur við atvinnuástandið en kennarar á landsbyggðinni vilja margir frekar fara í verkfall en segja upp. Frá þessu var greint á vef ríkisútvarpsins.
Af þeim hundrað grunnskólakennurum, sem sagt hafa upp störfum vegna óánægju með kaup og kjör, eru hlutfallslega langflestir í Reykjanesbæ, en þar hafa 40 kennarar sagt starfi sínu lausu. Af þeim 56 kennurum, sem hafa sagt upp í Reykjavík, starfa 33 í Breiðholti. Ekki eru teljandi uppsagnir kennara á landsbyggðinni.
Haft var eftir trúnaðarmanni kennara á Djúpavogi að hún teldi atvinnuástand á landsbyggðinni valda því að kennarar segðu síður upp. Þar sem að atvinnutækifæri væru ekki eins mörg og á höfuðborgarsvæðinu, væri ekki eins auðvelt fyrir kennara á landsbyggðinni að segja starfi sínu lausu.
Samkvæmt upplýsingum frá Grunnskólanum á Ísafirði hafa ekki borist neinar formlegar uppsagnir. Erna Sigrún Jónsdóttir, trúnaðarmaður kennara á Ísafirði, segir svipað vera upp á teningnum hjá kennurum á Ísafirði „Já, ég myndi segja að atvinnuhorfur á svæðinu hafi mikið að segja. Við höfum rætt það talsvert varðandi uppsagnirnar. Hér gengur þú ekkert endilega í störf sem krefjast þeirrar háskólamenntunar sem kennarar hafa. En auðvitað, ef fólki ofbýður algjörlega, þá íhugar það vissulega sína stöðu og tekur ákvörðun út frá því.“
brynja@bb.is