Norðurfjarðarhöfn fær 55 m.kr. styrk

Norðurfjörður. Mynd: Visit Westfjords.

Í gær var úthlutað 548 m.kr. úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Norðurfjarðarhöfn í Árneshreppi fékk næsthæsta styrkinn 55 m.kr.

Framkvæmdasjóðurinn fjármagnar framkvæmdir á ferðamannastöðum og ferðamannaleiðum í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila. Alls bárust 154 umsóknir um styrki að fjárhæð kr. 2.715.357.819,- til verkefna að heildarfjárhæð kr. 3.607.541.198.

Árneshreppur – Öryggismál og aðgengi ferðamanna við Norðurfjarðarhöfn.
Kr. 55.000.000,- styrkur til í að hámarka upplifun gesta, tryggja öryggi þeirra og um leið að efla núverandi samfélag og þá þjónustu sem það vill bjóða upp á. Lögð verður áhersla á að vinna með vistvænar lausnir í framkvæmdum og í öllum innviðum. Að flétta saman sjávarplássið við Norðurfjörð, þjónustu við ferðamenn í sátt og samlyndi við íbúa og náttúru. Unnið verður að góðu aðgengi með tilliti til öryggis í tengslum við núverandi starfsemi. Skilgreindar verða öruggar gönguleiðir og flæði um svæðið. Aðgengi fyrir fatlaða verður stórbætt.

„Styrkirnir fara til verkefna hringinn í kringum landið, stórra sem smárra, sem öll skipta máli. Uppbyggingin er grundvölluð á heildarsýn fyrir hvern landshluta og áfangastaðaáætlanir. Styrkur úr sjóðnum stuðlar að bættri upplifun og aðgengi ferðamanna, bættu öryggi og við styðjum við viðkvæma náttúru landsins. Með þessu stuðlum við að sjálfbærni þeirra og tryggjum framtíð þeirra sem áfangastaða um ókomna tíð,“ segir Lilja Alferðadóttir ferðamálaráðherra. 

DEILA