Fuglaflensuveirur (H5) greindust í sýnum sem tekin voru úr heimilishænum á bænum Reykjum á Skeiðum 15. apríl sl. og rannsökuð á Tilraunastöð HÍ að Keldum.
Hænurnar voru með sjúkdómseinkenni sem bentu sterklega til að um fuglaflensu væri að ræða. Auk þess hafði fuglaflensa greinst í hrafni sem fannst dauður á bænum nokkrum dögum áður.
Sýnin verða rannsökuð nánar á rannsóknarstofu erlendis m.a. hvað meinvirkni varðar og er niðurstöðu að vænta í næstu viku.
Talið er nokkuð víst að hænurnar hafi smitast af villtum fuglum. Litlar líkur eru taldar á að smit hafi borist frá hænunum í aðra alifugla en Matvælastofnun mun kanna það nánar og mikilvægt er að eigendur alifugla á svæðinu fylgist vel með fuglunum sínum og tilkynni án tafar til Matvælastofnunar ef þeir verða varir við sjúkdómseinkenni eða dauða.
Fólki er bent á að gæta ítrustu sóttvarna ef það þarf að handleika villta fugla, hvort sem þeir eru dauðir eða lifandi. Hræ skulu annað hvort látin liggja óhreyfð eða tekin í plastpoka án þess að þau séu snert með berum höndum.
Það skal tekið fram að engin dæmi eru um að fólk smitist af fuglaflensu við neyslu eggja eða fuglakjöts, hvort sem er af alifuglum eða villtum fuglum.