Óásættanlegt að hafa Baldur áfram

Breiðafjarðarferjan Baldur.

Vegagerðin hefur sent frá sér tilkynningu um að niðurstaða stofnunarinnar eftir athugun sé að hafa núverandi skip til ferjusiglinga yfir Breiðafjörð meðan samningur um þjónustuna er í gildi en huga að endurnýjun ferjumannvirkja. Ekkert skip fannst sem uppfyllir framsettar kröfur.

Samráðsnefnd Tálknafjarðar og Vesturbyggðar tók málið fyrir í síðustu viku. Verður ekki sagt að ákvörðun Vegagerðarinnar hafi verið tekið fagnandi.

Samráðsnefndin bókaði eftirfarandi:

„Samráðsnefnd telur ákvörðunina algjörlega óásættanlega og kallar eftir skýrum svörum frá Vegagerðinni um hvernig öryggi farþega Baldurs sé tryggt og hvert viðbragðið sé verði samskonar óhöpp og urðu í júlí 2020 og mars 2021 þar sem Baldur varð vélavana á leið sinni um Breiðafjörð.

Bæjarstjóra Vesturbyggðar og sveitarstjóra Tálknafjarðarhrepps falið að kalla eftir svörum frá Vegagerðinni og leggja fyrir á næsta fundi samráðsnefndar.“

DEILA