Gunnar Gaukur Magnússon, fyrrverandi framkvæmdastjóri Vesturverks á Ísafirði, sem stendur að Hvalárvirkjun, segir ummæli Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra um Hvalárvirkjun vera kosningaáróður og bull.
Katrín sagði í viðtali við Mannlíf um síðustu helgi að hún væri andvíg Hvalárvirkjun, eins og sagt var frá á bb.is í gær, og að virkjunin hefði aukist að afli frá því að hún var samþykkt í nýtingarflokk Rammaáætlun 2.
Gunnar Gaukur segir það rétt að aflið hafi aukist frá Rammaáætlun 2 úr 37 MW í 55 MW í Rammaáætlun 3. Það hafi hins vegar engin áhrif á virkjunina þar sem aflaukningin væri fengin með því hafa meira stál í túrbínunum sem gefur aukið afl. Um væri að ræða sömu framkvæmd, sömu stíflur, sömu skurði o.sfrv. Það væru því engin rök fyrir því að styðja Hvalárvirkjun með 37 MW en vera andvígur 55 MW virkjun.
Vinstri grænir lögðu til og samþykktu Hvalárvirkjun
Rammaáætlun 2 var samþykkt á Alþingi í janúar 2013. Það var Svandís Svavarsdóttir, sem þá var umhverfisráðherra, sem lagði Rammaáætlunina fram á Alþingi og lagði þar til að Hvalárvirkjun yrði í nýtingarflokki og var það samþykkt. Rökstuðningurinn var þessi:
Eini virkjunarkostur á Vestfjörðum sem metinn var af öllum faghópum. Virkjun á Vestfjörðum skiptir miklu máli fyrir orkuöryggi þar.
Bæði Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir greiddu atkvæði með samþykkt málsins.
Rammi 3 óafgreiddur
Rammaáætlun 3 var birt 2016. Þar var Hvalárvirkjun orðin 55 MW virkjun en engu að síður var lagt til að Hvalárvirkjun yrði áfram í nýtingarflokki og segir eftirfarandi í rökstuðningi:
Engar eða óverulegar breytingar frá verndar- og orkunýtingaráætlun sem samþykkt var 14. janúar 2013.
Þingsályktun um Rammaáætlun 3 hefur tvisvar verið lögð fram á Alþingi, fyrst í febrúar 2017 og svo aftur þann 30.11. 2020. Í fyrra sinnið var Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra og nú síðast Guðmundur Ingi Guðbrandsson. Tillagan hefur ekki verið afgreidd.