Smit er komið upp í knattspyrnuliði Vestra. Þrír reyndust smitaðir og er allt liðið komið í sóttkví. Búið er að fresta leik liðsins sem vera átti á fimmtudaginn og staðan verður metin á laugardaginn.
Tildrög málsins eru þau að grunur vaknaði um smit hjá einum leikmanni á föstudaginn og var það staðfest seinnipart á laugardag. Sá leikmaður var ekki í leikmannahópi liðsins á laugardaginn í varúðarskyni.
Alt liðið var þá sent í skimun og leiddi hún í ljós að tveir leikmenn til viðbótar voru smitaðir. Þessir þrír eru allir í einangrun. Smitleiðin er ekki þekkt að sögn Samúels Samúelssonar formanns knattspyrnudeildar Vestra.