Í fyrravor kom út skýrsla starfshóps sjávarútvegsráðherra um atvinnu- og byggðakvóta um endurskoðun á meðferð og ráðstöfun 5,3% aflaheimilda. Í þessum 5,3% potti sem ríkið hefur til ráðstöfunar, sem oft er kallað félagslega kerfið, er strandveiðikvótinn ásamt almenna byggðakvótanum, sértæka byggðakvótanum, línuívilnun, frístundaveiðum og skel- og rækjubótum. Gerð er tillaga að sex ára tilraun innan kerfisins.
Það er margt gott sem kemur fram í skýrslunni. Þar er að finna ágæta samantekt á gögnum og tölulegum upplýsingum. Jafnvel góðar tillögur. Sem dæmi má nefna að lagt er til að 5,3% aflaheimilda inn í félagslega kerfið verði tekin strax til hliðar, áður en aflamarki er úthlutað. Nú er hlutdeildin í félagslega kerfinu dregin frá aflaheimildum hvers og eins skips. Sú tilhögun er ekki góð. Útgerðarmenn líta á þetta sem sértæka skattheimtu og eru ósáttir.
Starfshópurinn leggur ennfremur til að strangar takmarkanir 5. gr. reglugerðar nr. 386/2019 á því hvaða tólf daga í mánuði megi stunda strandveiðar verði felldar úr gildi eða eins og segir í skýrslunni: “Óþarft virðist að löggjafarvaldið takmarki hvaða daga eigandi fiskiskips nýtir til strandveiða”. Heyr heyr! Þetta eru þarfar ábendingar hjá skýrsluhöfundum og félög smábátasjómanna og Píratar hafa ítrekað bent á og lagt til hið sama.
Það má benda á fleiri góðar tillögur. En það er því miður fleira sem er gagnrýnivert en lofsvert í skýrslunni. Í raun má líta á skýrslu starfshópsins og tillögur hans í heild sem eina allsherjar tilraun með félagslega kerfið í sjávarútvegi. Sem betur fer gafst ekki tími á vorþingi til að samþykkja vont frumvarp byggt á tillögum starfshópsins.
Botnlausar bætur
Tillaga um að gera upp rækju- og skelbætur sem kostar ríkið milljarða. Rækju- og skelbæturnar áttu að vera tímabundnar og minnka ár frá ári þar til þeim lyki. Höldum okkur við þá áætlun í stað þess að greiða milljarða í bætur fyrir skaða sem varð fyrir löngu síðan. Engum datt í hug að greiða bætur til vídeóleigueigenda þegar fjaraði undan þeirri atvinnugrein.
Lagt er til að innbyrðis skipting aflaheimilda ríkisins í félagslega kerfinu verði fest til sex ára, byggt á hlutföllum en ekki magni. Þetta er illa ígrundað. Tilraun til sex ára hvorki meira né minna. Ekki er lagt til af hálfu nefndarinnar hver innbyrðis skipting ætti að vera en mælt með að ráðuneytinu verði falið að skilgreina og festa hlutföllin með reglugerð.
Hér er vert að taka það fram að hlutfall strandveiðikvótans hefur verið allt frá 0% árið 2008 og upp í 1,88% árið 2019. Við treystum ekki sjávarútvegsráðuneytinu til að skammta strandveiðum nægilega háu hlutfalli til að greinin nái að blómstra. Mitt á milli 0% og 1,88% er 0,96%. Því miður teljum við ráðuneytinu trúandi til að skammta út frá meðaltali síðustu ára. Þannig myndi hlutdeild strandveiða minnka töluvert frá því sem nú er. Hlutdeild sem hefur tekist að kría út með kjafti og klóm í áratuga baráttu við ráðuneytið.
Bilaður byggðakvóti
Tillögur nefndarinnar sem snúa að byggðakvótanum eru vondar tillögur. Þær eru á þá leið að almennum byggðakvóta verði úthlutað til næstu sex ára í áður ákveðnum hlutföllum til að auka fyrirsjáanleika. Þetta þýðir að Byggðastofnun getur gert sex ára samninga við sveitarfélög um úthlutun byggðakvóta, byggt á meðaltali síðustu 3ja eða 10 ára. Sveitarfélög geta gert sex ára samninga við vini og vandamenn um úthlutun á kvóta. Lagt er til að sértæki byggðakvótinn verði alfarinn bundinn í sex ára samninga með tilvísun í áðurnefndan fyrirsjáanleika. Þetta er biluð hugmynd.
Byggðakvótinn er til þess að mæta ófyrirséðum áföllum, tímabundnum eða langvarandi erfiðleikum sjávarbyggða. Það hlýtur að vera hverjum manni augljóst að það er erfiðara að bregðast við ófyrirséðum áföllum ef búið er að binda úthlutun í samninga til sex ára. Lagt er til að ónýtt línuívilnun renni inn í byggðakvótann. Eðlilegra væri að þetta fari inn í strandveiðar til að styrkja þær enn frekar. Enda hefur verið sýnt fram á með rannsóknum að árangur byggðakvótans hefur verið rýr og ekkert í þessum tillögum gefur til kynna að árangurinn verði nokkuð betri.
Lokatillaga nefndarinnar snýr að stofnun varasjóðs sem ætlunin er að nýta til að mæta óvæntum áföllum. Þetta er undarlegasta tillaga nefndarinnar. Byggðakvótinn og félagslega kerfið allt, öll 5,3 prósentin, eru til þess að mæta áföllum og mætti því líta á sem nokkurs konar varasjóð. Hér er sem sé ætlunin að stofna varasjóð innan varasjóðs. Þetta ógagnsæja ráðslag býður heim sjóðasukki og tilheyrandi möguleikum á fyrirgreiðslu til vina og vandamanna.
Viðvarandi vandamál
Þá víkur málinu að annarri tilraun. Það voru gerðar töluverðar breytingar á fyrirkomulagi strandveiða sumarið 2018. Nýja tilhögunin átti að vera tilraun og úttekt á henni átti að fylgja í vertíðarlok. Úttekt í mýflugumynd dúkkaði upp eftir dúk og disk. Þar kom m.a. fram að skortur á nýliðun og ólympískar veiðar eru enn vandamál.
Við höldum því fram fullum fetum eftir samtöl og samráð við smábátasjómenn um allt land að tilraunin hafi skilað lítilli nýliðun í greininni. Aukin nýliðun var eitt aðalmarkmið tilraunarinnar. Smábátaútgerðum hefur ekki fjölgað. Það var einnig markmið tilraunarinnar. Greinin er hvorki lífvænleg né sjálfbær innan þessa kerfis. Það var eitt markmið tilraunarinnar.
Þess má geta að á svæði B fækkaði bátum á strandveiðum úr 105 árið 2017 niður í 66 árið 2018. Algjört hrun vegna tilraunar sem fyrirséð var að hyglaði ákveðnum landsvæðum. Ólympískar veiðar eru enn í fullu gildi vegna heildarkvóta yfir landið en bátar eru fastir á svæðum og stöðvunarheimildar Fiskistofu. Þær hafa jú breyst, þær eru ekki í upphafi mánaðar og innan svæða eins og var fyrir breytingarnar 2018. Nú er linnulaus ólympísk keppni allt tímabilið við að ná tilsettum 12 dögum í hverjum mánuði. Ólympískar veiðar án atrennu , á öllum svæðum, hvernig sem viðrar, þangað heildarpotturinn er uppurinn. Öryggi hefur því ekki aukist en það var einmitt aðalmarkmið breytinganna.
Stóra tilraunin
Við krefjumst þess að faglegri úttekt sem var lofað verði framkvæmd. Við vildum ekki að tilraunin yrði fest í sessi með varanlegum lagabreytingum án faglegrar úttektar. Fúsk og svikin loforð eru óvirðing gagnvart þessari mikilvægu atvinnugrein og öllum sem henni tengjast.
Við teljum að í stað tilraunastarfsemi á litlu kerfunum í sjávarútvegi sé tími til kominn að ráðherra geri tilraun í stóra kvótakerfinu. Það hafa komið í ljós ýmsir vankantar á því allt frá því hvernig stofnað var til þess árið 1983, til breytinga um frjálsa framsalið 1991, til dagsins í dag. Grunur leikur á innherjasvikum við breytingarnar þegar þær voru ákveðnar 1983.
Aðrir vankantar eru samþjöppun, kvóti úr byggðarlagi hverfur nánast yfir nótt. Vestfirðingar fóru mjög illa út úr þessu. Það er engin leið til nýliðunar í greininni. Það er tími til kominn að kvótakerfinu verði breytt til umbóta, jafnræðis, jöfnunar aðstöðumunar og eðlilegrar samkeppnisstöðu greinarinnar. Þar má telja uppboð á tímabundnum veiðiheimildum þar sem leigutekjurnar renna að fullu til þjóðarinnar.
Allur fiskur á markað. Frjálsar handfæraveiðar einmitt til að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu eins og ber skylda til skv. 1.gr. laga um stjórn fiskveiða. Allar upplýsingar frá vigtun og markaði skulu vera opinberar. Störf Hafró skulu vera gagnsæ og aðgengileg almenningi. Vigtunaraðilar eiga að vera á ábyrgð Fiskistofu. Tryggja verður virkt eftirlitshlutverk Samkeppniseftirlitsins. Stórefla þarf Landhelgisgæsluna til eftirlits og þjónustu við sjávarútveginn. Það skal gert refsivert að láta sjómenn taka þátt í leigu eða kaupum á veiðiheimildum sem og fjárfestingum útgerða. Allt þetta má finna í sjávarútvegsstefnu Pírata.
Stuðningur frá SÞ
Niðurstaða mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá 24. október 2004 tekur undir ákallið eftir umbótum á íslenskri fiskveiðistjórnun. Í áliti mannréttindanefndarinnar gagnrýnir hún harðlega þá aðferð að úthluta nýtingarréttinum til ákveðinna hópa, þannig að sameign þjóðarinnar fór í skjóli fiskveiðistjórnunarlaga að ganga kaupum og sölum eins og hver önnur fasteign, og hafi þannig torveldað öðrum aðgang að fiskveiðum. Þó álitið sé ekki bindandi fyrir Ísland þá ber okkur að hlusta á helstu sérfræðinga heims og taka athugasemdir þeirra alvarlega. Það á að gæta jafnræðis við úthlutun veiðiheimilda og atvinnufrelsis, m.a. í samræmi við þetta álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.
Klárt brot
Þannig geti þeir sem upprunalega fengu úthlutað kvóta selt hann eða leigt á markaðsverði hverju sinni hafi þeir ekki hug á að hagnýta hann sjálfir, í stað þess að skila kvótanum aftur til ríkisins til endurúthlutunar í gegnum uppboð. Nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að þessi varanlega kvótaafhending til ákveðinna einstaklinga sé ekki byggður á sanngjörnum forsendum og að um klárt brot sé að ræða. Nefndin kemst jafnframt að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkinu sé skylt að ábyrgjast raunhæfar úrbætur og að íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið verði endurskoðað.
Þetta er tilraunin sem þarf að ráðast í. Hættum þessum smáskrefatilraunum í litlu kerfunum. Ráðumst á fílinn í herberginu en hættum að einblína á mýsnar.
Álfheiður Eymarsdóttir, oddviti Píratar í Suðurkjördæmi
Gunnar Ingiberg Guðmundsson, skipar 2.sæti á lista Pírata í Norðvesturkjördæmi