Skautasvell hefur verið útbúið við Gunnskólann á Flateyri. Er það um 240 fermetrar að stærð og hefur það verið í notkun frá áramótum við miklar vinsældir eldri sem yngri kynslóðarinnar.
Gerð skautasvellsins var eitt af 9 verkefnum sem fékk í haust styrk úr Þróunarverkefnissjóði Flateyrar. Forsvarsmaður verkefnisins er Sigurður J. Hafberg.
Töluverð vinna var við undirbúning og þurfti meðal annars að steypa plan undir svellið.
Sunna Reynisdóttir, skólastjóri segir að nemendur Grunnskóla Önundarfjarðar njóti góðs af því alla daga og taki miklum framförum við hinar ýmsu listir sem leika má á skautum, „vinna hin ýmsu verkefni þessu tengd og svo er þetta bara svo skemmtileg útivist, gott að brosa og hlæja og taka þær góðu tilfinningar með sér inn í skólahúsið.“
Á laugardögum hefur svellið verið vel sótt íbúar hafa safnast þar saman og gert sér glaðan dag.
Myndir: Sunna Reynisdóttir.