Daníel Jakobsson, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs hefur verið ráðinn til Arctic Fish. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að Daníel sé ráðinn sem ráðgjafi í sérverkefni Hann mun hefja störf um miðjan janúar. Daníel er viðskiptafræðingur að mennt og hefur víðtæka reynslu úr viðskiptalífinu og fær því félagið öflugan liðsmann búsettan á starfssvæðinu til starfa hjá félaginu.
Artic Fish er í örum vexti með tilheyrandi fjölgun verkefna og stefnir á 25 þúsund tonna árlega framleiðslu og sölu á næstu 5 árum. Félagið er í skráningarferli á norska hlutabréfamarkaðnum og er auk þess í fjárfestakynningum gagnvart innlendum fagfjársetum. Hjá félaginu starfa í dag tæplega 70 manns og sala félagsins á árinu verður um 7.500 tonn. Félagið starfar á öllum Vestfjörðum, seiðaeldi félagsins er á Tálknafirði og félagið er með laxeldisleyfi í Patreksfirði, Tálknafirði og Dýrafirði. Þá er fyrirtækið einnig með leyfi fyrir silungseldi í Ísafjarðdjúpi. Skrifstofa félagsins er á Ísafirði.
Í september óskaði Arctic Fish eftir því við Ísafjarðarbæ að hafin yrði formleg vinna milli Ísafjarðarbæjar og Arctic Fish að staðarvalkostagreiningu fyrir framtíðarþarfir fyrirtækisins.
Sams konar erindi voru send til Bolungavíkurkaupstaðar og Súðavíkurhrepps. Shiran Þórisson, fjármálastjóri Arcic Fish sagði þá í samtali við Bæjarins besta að gert væri ráð fyrir að niðurstaða liggi fyrir fljótlega eða eftir 6-12 mánaða um hvar verði byggt upp. Stærsta fjárfestingin er bygging sláturhúss fyrir vinnslu, en einnig þarf aðstöðu fyrir samsetningu kvía, viðhalds fyrir þjónustubáta og þjónustuhöfn.
Fréttin hefur verið uppfærð.