Bjarni Jónsson, sveitarstjórnarmaður í Skagafirði er stjórnarmaður í Sambandi íslenskra sveitarfélaga auk þess að vera varaþingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi. Bjarni segir að hann hafi ekki staðið að tillögu stjórnar um að setja lágmarksíbúafjölda í sveitarfélögum og þvinga þannig fram sameiningar sveitarfélaga. Þá hafi hann ekki heldur verið í þeim hópi stjórnarmanna sem lögðust í gær á landsþingi Sambands íslennskra sveitarfélaga gegn tillögu um að falla frá lágmarksíbúafjöldanum.
Bjarni Jónsson var bundinn við önnur störf í gær og sat ekki landsþingið, en sagði í samtali við Bæjarins besta að hann hefði ekki greitt atkvæði gegn tillögunni.
Bjarni benti á að stuðningur við tillöguna hefði verið það mikill að ljóst væri að stjórn sambandsins, ráðherra og Alþingi yrðu að taka tillit til hans. Nefndi Bjarni að viðræður væri víða um land um sameiningar sveitarfélaga og sagði að það væru ekki góð skilaboð að hvetja til þess á sama tíma að þvinga fram sameiningu með lögum. það gætu ekki verið heppileg skilaboð til þeirra sem væru í viðræðum.