Í dag eru rétt 25 ár síðan mikið snjóflóð féll á byggðina á Flateyri úr Skollahvilft og og gjöreyðilagði sautján hús en einungis þrjú þeirra voru innan hættusvæðis þess tíma. Flóðið féll að nóttu til þegar klukkan var sjö mínútur yfir fjögur.
Fjörtíu og fimm manns lentu í flóðinu, tuttugu og einn komust úr flóðinu af eigin rammleik, fjórum var bjargað og tuttugu létu lífið. Margir misstu ástvini sína og heimili.
Flateyringar sinnu björgunarstörfum einir fyrstu klukkustundirnar en eftir sex klukkustundir komu björgunarsveitarmenn og hjúkrunarfólk frá Ísafirði. Skömmu síðar voru um 110 leitarmenn komnir til Flateyrar. Þeim fjölgaði svo þegar leið á daginn og síðdegis voru um 220 manns með sex leitarhunda við leit af fólkinu.
Miklir varnargarðar voru reistir í kjölfarið til varnar byggðinni fyrir frekari flóðum. Nýlega hefur verið ákveðið að gera breytingar á leiðigörðum til þess að koma í veg fyrir að flóð fari í höfnina eins og gerðist í janúar síðarliðinn. Þá eyðilögðust sex bátar sem í höfninni voru.