Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar frestaði á fundi sínum á fimmtudaginn að afgreiða tillögu um friðlýsingu landsvæðis í kringum Dynjanda sem þjóðgarður. Ætlunin var að væntanleg samþykkt bæjarstjórnar yrði lögð fram á fundi samstarfshóps um friðlýsingar á Vestfjörðum innan marka Vesturbyggðar og Ísafjarðarbæjar.
Sigurður Jón Hreinsson, bæjarfulltrúi telur að áform um friðlýsingar á Vestfjörðum séu ótímabærar á meðan bráðnauðsynleg innviðamál eru ófrágengin. Hann sagði í samtali við Bæjarins besta að óþart ætti að vera að rifja upp sorgarsöguna um vegagerð í Gufudalssveit, sem þó nýtur ekki opinberrar friðlýsingar og í því samhengi hræða sporin á meðan vegagerð um Dynjandisheiði er ekki lokið. Einnig væri rétt að benda á það að raforkumál á Vestfjörðum eru enn í ólestri og óvissa um uppbyggingu raforkukerfisins er mjög mikil, nú þegar áform um virkjun Hvalár hafa verið sett til hliðar.
„Augljóst er að virkja þarf á Vestfjörðum til að efla raforkukerfið og þó svo að flestir Vestfirðingar séu sammála um að Dynjandi eigi að njóta sérstakrar verndar, eru nokkur vatnasvið á því svæði sem kunna að falla undir umrædd áform um friðlýsingu. Þessi tilteknu vatnasvið kunna að vera hagkvæm og nauðsynlegt getur reynst að nýta til að styrkja raforkukerfi Vestfjarða.“ Sigurður lagði því til að bæjarstjórn samþykkti ekki erindið og legði þess í stað til við samstarfshóp um friðlýsingar á Vestfjörðum að áformum um friðlýsingu úr Dynjandisvogi og suður í Vatnsfjörð, verði frestað um óákveðinn tíma.
Sigurður segir að svo hafi komið í ljós að það voru flestir á svipaðri línu, „smá smeikir um að festast í sporum fortíðar, en langa samt í þjóðgarð…bara ekki alveg strax.“