Súðavík: raðhús rís hratt

Frá nýbyggingunni í Súðavík. Mynd: Ásgeir Hólm.

Þessa dagana miðar vel byggingu fimm íbúða raðhúss á lóð Grundarstrætis 5-7-9 í Súðavík. Hrafnshóll ehf. stendur að byggingu húsnæðisins  í samvinnu við Súðavíkurhrepp. Mun Súðavíkurhreppur kosta byggingu þriggja íbúða, 3ja og 4ja herbergja, þær stærri um 90 m2. En Hrafnshóll ehf. mun eiga og reka tvær íbúðir í óhagnaðardrifnu leigufélagi.

Áformað er að mæta útgjöldum vegna uppbyggingar með sölu á fasteignum í eigu Súðavíkurhrepps, enda á hreppurinn orðið talsvert af húsnæði, bæði íbúðar- og atvinnuhúsnæði. Hafa íbúður í eigu hreppsins í Hlíf á Ísafirði verið auglýstar til sölu.

Að öðru leyti mun fjármögnun verða með láni frá Íbúðalánasjóði. Hvort heldur sem er mun uppbygging húsnæðis ekki hafa veruleg áhrif á afkomu hreppsins, en fjármögnun verður í formi lántöku að hluta. Tíminn mun svo leiða í ljós, segir Bragi Thoroddsen sveitarstjóri,  hvort Súðavíkurhreppur komi til með að eiga og reka húsnæðið að fullu eða hvort íbúðir verði seldar á frjálsum markaði. Rekstur fasteigna mun verða í hlutafélagi.

DEILA