Sveitarstjórn Reykhólahrepps kom sama á þriðjudaginn og tók fyrir kæru Landverndar til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál á útgefið framkvæmdaleyfi til Vegagerðarinnar til vegagerðar samkvæmt svonefndri Þ-H leið.
Í samþykkt sveitarstjórnarinnar er því harðlega mótmælt að form- og efnisannmarkar séu á afgreiðslu þess við ákvörðun um framkvæmdaleyfi. Vísar sveitarfélagið til þeirra gagna sem liggja fyrir um málið og eftirfarandi athugasemda við kæruna.
Niðurstaða sveitarfélagsins, eftir ítarlega skoðun, segir í viðbrögðum sveitarstjórnarinnar, er að Vestfjarðavegur liggi skv. leið Þ-H, á milli Bjarkalundar og Skálaness. „Þar vegur þungt að nauðsyn þess að ráðast strax í vegabætur í sveitarfélaginu og fyrir Vestfirði alla, og að ekki hafi fengist vilyrði frá stjórnvöldum fyrir því að fá fjármuni í aðra kosti, sem hafi umfangsminni umhverfisáhrif í för með sér. Sú niðurstaða byggir á öllum gögnum málsins.“
Sveitarfélagið telur sig hafa uppfyllt rannsóknarskyldu sína bæði í undirbúningi fyrir ákvörðun um aðalskipulagsbreytingu og síðan við ákvörðun um framkvæmdaleyfi.
„Það er brýn nauðsyn að ráðast í samgöngubætur og er leið Þ-H eina raunhæfa lausnin til að bæta samgöngur í sveitarfélaginu. Ávinningur af framkvæmdinni er hins vegar slíkur að hann réttlæti það rask sem verði á umhverfinu. Ávinningur snýr að hagsmunum íbúa sveitarfélagsins og Vestfjarða, með því að bæta verulega samgöngur og auka umferðaröryggi.“
Hafnar því að Vegagerðin hafi beitt þvingun
Þá hafnar sveitarstjórnin því að ákvörðun um veitingu framkvæmdaleyfis byggi á þvingunum Vegagerðarinnar. Reykhólahreppur telur að sveitarstjórn hafi farið hafi eftir lögum og reglum við ákvörðun um framkvæmdaleyfi. „Sá veruleiki að það séu takmarkanir á ákvarðanir sveitarfélagsins að fara gegn tillögu Vegagerðar skv. vegalögum og takmarkaðir fjármunir séu til samgönguframkvæmda getur ekki verið tilefni til ógildingar á ákvörðun um að veita framkvæmdaleyfi fyrir leið Þ-H.“
Þrír sveitarstjórnarmenn standa að þesari samþykkt. Það voru Árný Huld Haraldsdóttir, Jóhanna Ösp Einarsdóttir og Embla Dögg B. Jóhannsdóttir. Ágústa Ýr Sveinsdóttir sat hjá. Ingimar Ingimarsson greiddi atkvæði gegn og bókaði að hann tæki undir að mestu leyti athugasemdir Landverndar og að hann teldi að margar kærur myndu verða í þessu máli.