Flatey á Breiðafirði: friðland stækkað

Umhverfisstofnun hefur kynnt áform um endurskoðun á friðlýsingu Flateyjar á Breiðafirði. Um er að ræða stækkun á friðlandinu sem þar er fyrir ásamt endurskoðun friðlýsingarskilmála. Áformin eru kynnt í samstarfi við landeigendur og sveitarfélagið Reykhólahrepp.

Verndargildi svæðisins felst fyrst og fremst í að svæðið er búsvæði og varpsvæði mikilvægra fuglastofna en fuglalíf í eynni er afar fjölskrúðugt.

Þar er varpsvæði þórshana sem er sjaldgæfur fugl á landsvísu og er á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands sem tegund í hættu. Einnig verpa þar ábyrgðartegundir Íslendinga, s.s. kría og lundi. Þá er mikið æðarvarp innan marka friðlandsins. Á svæðinu eru miklar leirur með fjölbreyttu lífríki sem eru mikilvægar til fæðuöflunar fyrir margar tegundir fugla.

Austurhluti Flateyjar á Breiðafirði var friðlýstur árið 1975 vegna fuglaverndar. Friðlandið nær yfir austurhluta eyjarinnar ásamt eyjum og hólmum sunnan við Flatey. Líffræðileg fjölbreytni svæðisins er mikil og er þar að finna  fjölskrúðugt fuglalíf sem byggist m.a. á fjölbreyttu fæðuframboði, miklum fjörum og takmörkuðu aðgengi rándýra að svæðinu.

Frestur til að skila athugasemdum við áformin til Umhverfisstofnunar er til og með 25. maí 2020.

 

DEILA