Flateyri: Traustið bilar á varnargarðana

Varnargarðurinn á Flateyri. mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Náttúruöflin létu til sín taka í fyrradag. Stór snjóflóð féllu bæði í Súgandafirði og á Flateyri.  Suðureyri er á öruggu svæði gagnvart snjóflóðum, en norðan megin í firðinum eru þekkt snjóflóðasvæði og þar féll flóð sem olli flóðbylgju yfir fjörðinn sem skall á Suðureyri án þess þó að valda neinum alvarlegum skaða.

Flóðið á Flateyri var alvarlegra mál. Það féll úr giljum sem eru þekkt frá harmleiknum 1995, Skollahvilft og innra -Bæjargili. Til þess að varna frekari hættu af flóðum frá þessum giljum voru hannaðir og reistir öflugir varnargarðar. Yfirlýstur tilgangur garðanna er að verja byggðina og gera hana örugga til búsetu. Það má orða svo að tilgangurinn var sá að íbúarnir myndu treysta því að þeir byggju við öryggi hvað hættu af snjóflóðum viðvíkur.

Það tókst og á varnargörðunum hefur verið mikið traust, bæði af hálfu íbúanna á Flateyri og annarra Vestfirðinga. Traustið er forsenda búsetunnar. Það var stjórnvöldum ljóst eftir 1995 og því var öll áherslan lögð á að hanna og reisa varnargarða sem hægt væri að treysta.

Á því er enginn vafi að þeir sem að máli komu lögðu sig fram um að búa til örugga garða. Það þarf ekkert að efast um það. Það er líka víst að varnargarðarnir gerðu mikið gagn og vörðu byggðina á eyrinni í fyrradag.

En hitt er líka ljóst eftir flóðin á þriðjudagskvöldin að varnargarðarnir héldu ekki að öllu leyti. Samkvæmt heimildum Bæjarins besta brutu flóðin tvö sér leið yfir varnargarðinn á tveimur stöðum. Í öðru tilvikinu varð það til þess að flóðið skall á íbúðarhúsi og einn íbúi festist undir því. Þá kom í ljós sá alvarlegi galli á hönnun garðanna að flóði úr Skollahvilft var beint  í sjávarlón og þaðan svo áfram í höfnina með þeim afleiðingum  sex bátar urðu fyrir flóðinu. Þeir eru líklega allir ónýtir eða að minnsta kosti mjög mikið skemmdir.

Ekkert af þessu átti að gerast. Flóðið átti ekki að fara yfir varnargarðana. En það gerðist, ekki bara á einum stað heldur tveimur. Einn íbúi vakti athygli á því þegar hönnunin var í undirbúningi að garðurinn gæti beint flóði í höfnina og því þyrfti að breyta hönnun garðsins til að koma í veg fyrir það. Á það var ekki hlustað. Greinilegt er að þessi möguleiki var útilokaður. En þetta gerðist samt.

Afleiðingarnar eru þær að traustið á varnargörðunum hefur beðið hnekki. Þessu reynsla segir íbúunum að þeir eru  ekki alveg öruggir.

Það er verkefni stjórnvalda að endurreisa traustið. Það er meira að segja brýnasta verkefnið. Það verður að hefjast strax handa og ríkisstjórnin verður innan mjög skamms tíma gefur afdráttarlausar yfirlýsingar um nauðsynlegar aðgerðir sem verðir framfylgt án tafar með aðgerðum.

Byggðin á Flateyri stendur völtum fótum. Atvinnulíf er veikburða. Íbúarnir verða að fá án tafar tryggingu fyrir því að hægt verði að treysta varnargörðunum. Óvissan og óöryggið eru undrafljót að grafa undan tiltrú fólks á framtíð staðarins. Það teflir engin í tvísýnu með líf og limi fjölskyldu sinnar. Nú standa öll spjót á stjórnvöldum. Að hika er það sama og að tapa.

Rétt er að minna á að margt hefur verið vel gert í viðbrögðum við flóðunum. Björgunarsveitir, landhelgisgæslan og fleiri opinberir aðilar og fjöldinn allur af sjálfboðaliðum hafa unnið afburðagott verk og eiga miklar þakkir skyldar fyrir sitt framlag. Um það ber öllum heimildarmönnum saman.

En, og það er kjarni málsins, það þarf að vera fullkomið traust á vörnunum.

-k

 

 

DEILA