Flugstjórinn Jens Þór Sigurðsson á TF Eir þyrlu Landhelgisgæslunnar fékk fyrr í vikunni eldskírnina við sjóbjörgun sem flugstjóri í vel heppnaðri björgun áhafnar bátsins Einars Guðnasonar ÍS 303 sem strandað hafði við Gölt. Jens Þór er ekki alveg ókunnugur staðháttum á þessum slóðum. Hann er Bolvíkingur, fæddur og uppalinn.
Bæjarins besta sló á þráðinn og ræddi við Jens Þór. Hann varð flugstjóri í júlí 2019 og segir að þetta sé fyrsta sjóbjörgunin sem hann stjórni.
Jens Þór hældi björgunarþyrlunni á hvert reipi. Þyrlan er af nýjustu gerð af Super Puma Airbus H225 árgerð 2010 og er leiguvél, önnur af tveimur sem Landhelgisgæslan hefur til umráða. „Þetta var eldskírnin á þessum vélum hún kom vel út“ segir Jens. Þessi gerð er mun hraðfleygari en fyrri vélar og segir Jens að aðeins hafi liðið um ein og hálf klukkustund frá því að lagt var af stað úr Reykjavík þar til búið var að skila áhöfninni á Einari Guðnasyni ÍS 303 til Ísafjarðar.
Að sögn Jens barst útkall um kl 11 um kvöldið frá stjórnstöð þar sem sagt var frá því að bátur væri strandaður við Gölt með fjórum mönnum um borð. „Farið var beint á staðinn frá Reykjavík, veður var gott, heiðskírt og bjart tungl. Þegar komið var yfir Snæfellsnes náðum við upplýsingum um aðstæður á strandstað og gátum teiknað upp sviðsmynd“ segir Jens Þór. „Báturinn var á gríðarlegri hreyfingu í fjörunni og við urðum að fara strax í björgun“ Jens segir að vegna aðstæðna hafi verið ákveðið að hífa tvo upp í hverri ferð í stað eins og það hafi gengið að vonum. Hífingar urðu því þrjár í stað fimm. Jens telur að björgunaraðgerðin á strandstað hafi tekið 13-14 mínútur.
Hringdirðu í mömmu?
Jens Þór Sigurðsson var spurður að því hvort hann hafi gefið sér tíma til að hringja í móður sína sem býr í Bolungavík, ekki svo langt frá. Nei, svarar hann, „það var orðið svo áliðið nætur þegar björgun var lokið að ég hringdi ekki fyrr en morguninn eftir.“
En segja má að fyrsta sjóbjörgunaraðgerðin sem Jens Þór Sigurðsson ber ábyrgð á sem flugstjóri hafi verið gæfuför og vart hægt að hugsa sér betri frumraun.