Helena Jónsdóttir hefur ákveðið að láta af störfum sem skólastjóri Lýðháskólans á Flateyri nú sumar og þá tekur Ingibjörg Guðmundsdóttir við.
Helena segir að það hafa ekki staðið til að hún yrði við skólann til langframa. Upphaflega stóð það til að hún ynni að því tryggja fjármögnun skólans og uppsetningu hans en þegar ljóst var að tekið yrði við nemendum fyrir skólaárið 2018-2019 var það auðveld ákvörðun að fylgja því eftir og vera árinu lengur.
Nú er skólinn kominn á fastari grundvöll með mótun skólastarfsins og samkomulagi við ríkið um fjármögnun.
„Þetta hefur verið mikið ævintýr og að mörgu leyti höfum við rennt blint í sjóinn“ segir Helena „ Á fyrsta starfsári nýs skóla mátti búast við því að starfið yrði á köflum tilraunakennt , en við höfum verið svo heppin að starfa hér með frábærum nemendum og kennurum sem öll sem eitt hafa tekið þátt í því að móta stefnu og kennsluhætti skólans til langframa. Þetta hefur verið þakklátt og gefandi starf og ég er stolt af því sem við höfum áorkað.“
„Við vildum búa til skóla sem rís undir nafni og skilar því sem ætlast er til af honum“ segir Helena og bætir því að að hún telji að þetta hafi tekist. Hún segir að það hafi aldrei komið til greina að hætta á þessum tímapunkti nema við tæki einhver sem réði við verkefnið. „Ingibjörg hefur mikla reynslu af skólastarfi og er mikill Flateyringur en hún á hér hús og er hér mikið í sínum frítíma. Hún, ásamt öðrum Flateyringum, vann mjög óeigingjarnt starf síðasta sumar við uppsetningu skólans og undirbúningi á fyrsta skólaárinu. Ég er mjög glöð yfir því að hún hafi fengist til þess að taka starfið að sér.“
En hvað nú?
„Hér fyrir vestan eru mikil tækifæri og á Flateyri er yndislegt að vera. Ég hyggst búa hér áfram og vinna sem sálfræðingur á svæðinu.“ segir Helena, en hún hefur meðfram starfi sínu sem skólastjóri unnið sem sálfræðingur að hluta til, haldið námskeið og flutt fyrirlestra.