Ísafjörður: einangrun knattspyrnuhússins kostar 100 mkr

Hugmynd að fjölnota íþróttahúsi.

Stofnkostaður á 2.970 fermetra íþróttahúsi knattspyrnuhúsi óeinangruðu er 506 milljónir króna en 602 milljónir króna ef húsið er einangrað. Þetta kemur fram í úttekt Verkís fyrir nefnd um byggingu fjölnota knattspyrnuhúss sem lögð var fram á fundi nefndarinnar á þriðjudaginn.

Þá er reiknað út hver heildarkostnaður kann að verða af stofnkostnaði og rekstri hússins í 80 ár. Ef húsið er einangrað og miðað við 10 gráðu hitastig er stofnkostnaðurinn 602 mkr og heildarkostnaðurinn 1.831 milljón króna. Sé húsið óeinangrað  verður stofnkostnaðurinn 506 mkr og heildarkostnaðurinn á líftíma hússin 1.770 milljónir króna.

Einnig eru gefnar upp tölur fyrir einangrað hús sem er hitað í 5 gráður. Þá er stofnkostnaðurinn áætlaður 597 milljónir króna og heildarkostnaður 1.789 milljónir króna.

Niðurstaða nefndarinnar var að fela tæknideild Ísafjarðarbæjar að óska eftir greiningu á kostnaði við byggingu óeinangraðs knattspyrnuhúss sem uppfyllir kröfur KSÍ, annarsvegar 46mX61m að innanmáli og hinsvegar 46mX70m.

DEILA