Það getur verið gaman að því þegar synir eru sporgöngumenn feðra sinna og má velta fyrir sér hvort það kemur frá genum eða uppeldi. Árið 1967 réði ungur Ísfirðingur sig á Júlíus Geirmundsson ÍS 270, sem þá var í smíðum í Boizenburg í Austur Þýskalandi, sem liggur við ána Elbu. Það var um hávetur þegar áhöfnin, undir forystu Vignis Jónssonar skipstjóra fóru út til að sækja skipið, sem var afhent í Hamborg. Komið var við í Horten í Noregi til að stilla siglingartæki en skipið hreppti svo hið versta veður með ísingu á heimsiglingunni.
Júlíus Geirmundsson var svo kallaður vertíðarbátur og byggður til að stunda línu og net ásamt síldveiðum á sumrin. Skipið var 268 lestir að stærð með 650 ha vél. Ungi maðurinn heitir Hans Georg Bæringsson og er Ísfirðingum að góðu kunnur, var meðal annars í bæjarstjórn Ísafjarðar um árabil. Georg og kona hans Hildigunnur Lóa Högnadóttir ráku málningaþjónustu og verslun í áratugi á Ísafirði.
Árið 1993 réði annar ungur Ísfirðingur sig á togarann Júlíus Geirmundsson ÍS 270, Hilmar Þór Georgsson. Skipstjórar þá voru Gunnar Arnórsson og Ómar Ellertsson. Júlíus var þriðja kynslóð togara með þessu nafni og er enn er gerður út, er frystitogari, 1402 brúttótonn með 3340 ha vél. Hilmar sótti sjóinn á Júlíusi um 12 ára skeið.
Um helgina mun Júlíus Geirmundsson ÍS 270 landa eftir þriggja vikna veiðitúr. Um borð í togaranum er Arnar Gunnar Hilmarsson, 18 ára barnabarn Georgs Bæringssonar. Þetta er fyrsti túrinn hjá ungum manni sem vonandi finnur sig vel við erfiða en gefandi vinnu sem sjósókn er. „Það var mjög góð lífsreynsla að sjá hvernig vinnan fer fram í frystitogara,“ sagði ungi sjómaðurinn þegar BB hafði samband við hann um leið og Júllinn lagði að bryggju. „Og maður sér mjög fjölbreytta karaktera um borð í svona bátum, það er líka góð lífsreynsla.“ Júlíus Geirmundsson var úti í 25 daga þennan túr. „Þetta var bara stuttur túr,“ sagði Arnar hógvær. „Ég var örlítið sjóveikur fyrst, en mjög heppinn með veður. Auðvitað var aðeins erfitt að vera úti svona lengi en maður má ekki láta það á sig fá og verður bara að búa sig undir það,“ sagði sjóarinn rólegur og það er greinilegt að starfið á vel við hann. Enda fer hann næsta túr á Júllanum sem er strax núna í vikunni.
Nafnið skipsins kemur frá Júlíusi Geirmundssyni sem var bóndi á Atlastöðum í Fljótavík í fjörutíu ár, frá 1906 til 1946, þegar fimm bændur í Fljóti brugðu búi og fluttu á mölina til Ísafjarðar og Hnífsdals. Júlíus var giftur Guðrúnu Jónsdóttur, en bátur með hennar nafni var gerður út í áratug áður en vertíðarbáturinn Júlíus Geirmundsson leysti hana af
hólmi. Í Vesturlandi segir í 60 ára afmælisgrein um Júlíus Geirmundsson: „Júlíus Geirmundsson er harðduglegur maður en hefur þrátt fyrir örðugar aðstæður i einni afskekktustu byggð á Íslandi, jafnan bjargast vel og séð sér og sínum vel farborða. Fljótavíkin er fiskisæl og á þeim miðum hefur Júlíus oft aflað notadrjúgs fengs. Hefur hann jafnan sótt sjó samhliða búskap sínum … Júlíus Geirmundsson er kjarnamaður. Þrek hans og kjarkur er óbilandi. Hann er léttur í lund og oft spaugssamur í viðræðu.“
Nafni þeirra hjóna á skipum hefur ávallt fylgt mikil gæfa sem áhafnir hafa notið alla tíð. Það var útgerðarfyrirtækið Gunnvör sem lét smíða þessi skip, en rekstur þess rann saman við Hraðfrystihúsið í Hnífsdal og heitir nú Hraðfrystihúsið Gunnvör. Blaðamaður, sem er barnabarn þeirra hjóna frá Atlastöðum í Fljóti, vill nota tækifærið og óska Georg og
fjölskyldu til hamingju og vonar að fyrsta heimkoma barnabarns hans verði ánægjuleg eftir manndómsvígslu sjómennskunnar.
Gunnar