Fjárveitingar til vegamála hafa undanfarin ár verið langt undir viðhalds- og framkvæmdaþörfum. Á sama tíma hefur akstur á vegum hins vegar aukist verulega. Þetta kom fram í samantekt sem Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi sl. föstudag.
Uppsöfnuð viðhaldsþörf er sögð nema um 65 milljörðum króna, þar sem fjárveiting til viðhalds vega hafi verið umtalsvert lægri en þörfin undanfarin ár og því liggja vegir víða undir skemmdum. Eins er þörfin fyrir styrkingar og endurbætur vega mikil og uppsafnaður vandi vegna þessa talin nálægt 50 milljörðum króna.
Í fréttatilkynningu frá Samgönguráðuneytinu segir að vaxandi ferðaþjónusta sé stór þáttur í aukinni viðhalds og framkvæmdaþörf, en í fyrra jókst akstur um allt að 11%.
Bent er á að framkvæmdir séu háðar verkefnabundnum fjárveitingum og t.am. sé sú framkvæmd að tvöfalda stofnleiðir til og frá höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesbraut, Suðurlandsveg og Vesturlandsveg um Kjalarnes metin á um 60 milljarða króna. Heildarframlög til nýframkvæmda árið 2018, eru hins vegar ekki nema 11,7 milljarðar króna.
Meðal þeirra framkvæmda sem þörf er að ráðast í eru framkvæmdir á Vestfjörðum í framhaldi af Dýrafjarðargöngum, jarðgangatengingu Seyðisfjarðar, endurbætur á Hringvegi og útrýming einbreiðra brúa á honum, en kostnaður við þetta er metinn á um 100 milljarða króna. Þá sé einnig afar brýnt að tvöfalda stofnleiðir til og frá höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesbraut, Suðurlandsveg og Vesturlandsveg um Kjalarnes en líkt og áður sagði er kostnaður við þær framkvæmdir metinn á um 60 milljarða króna.