Mikael Sigurður Kristinsson er 18 ára nemi við Menntaskólann á Ísafirði. Hann sker sig ekki mikið úr nemendahópnum en munurinn á Mikael og vísitölunemanum er að hann er með einhverfu. Á vísindadögum Menntaskólans sem voru haldnir á dögunum sagði Mikael frá einhverfu og hvernig hún hefur markað líf hans. Kynning Mikale var verðlaunuð sem besta kynningin á vísindadögum. „Ég fjallaði fyrst um hvað einhverfa er og hversu mismunandi hún getur verið. Manneskja sem er með dæmigerða einhverfu eins ég og getur talað og hagað sér eðlilega en það eru til fleiri afbrigði af einhverfu,“ segir Mikael.
Hann fór einnig yfir hvað við getum tengt einhverfu, fordóma sem einhverfir verða fyrir og hvað skólar geta gert fyrir fólk með einhverfu.
„Svo sagði ég mína sögu og hvernig ég lifi með einhverfu. Ég var lagður í einelti og átti erfitt í skóla vegna þunglyndis. Nú er ég á starfsbraut í Menntaskólanum og gengur frekar vel, eiginlega alveg fáránlega vel,“ segir Mikael.
Leiðin liggur upp á við hjá þessum efnilega unga manni en hann fer ekki í grafgötur með það að barnæskan hafi verið erfið. „Ég var greindur mjög seint með einhverfu og þetta var verst þegar ég var yngri, þá vissi ég ekki hvað var að mér. Ég vissi að ég væri öðruvísi en ekki af hverju.“
Á næstu önn ætlar Mikael að halda áfram námi. „Ég held áfram á starfsbraut en tek einhverja áfanga á náttúrufræðibraut. Markmiðið er að klára stúdentinn.“
Hér má horfa á fyrirlestur Mikaels.
Smari@bb.is