Horft verði til byggðasjónarmiða við fækkun sauðfjár

Af íslensku sauðkindinni fæst úrvalskjöt.

Byggðastofnun hefur skilað samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra greiningu á stöðu sauðfjárræktar og sauðfjárbænda sem hann óskaði eftir í sumar. Óskaði ráðherra eftir mati á stöðunni á svæðum þar sem kinda- og lambakjötsframleiðsla er mikilvæg landsbyggðinni og mati á áhrifum mikillar lækkunar á afurðaverði sem fulltrúar bænda hafa spáð fyrir um.

Tillögum Byggðastofnunar er í skipt í þrjá flokka: Aðgerðir vegna lausafjárvanda, aðgerðir til að ná jafnvægi á markaði og aðrar aðgerðir

Tillögur vegna lausafjárvanda eru þær að kannaðir verði möguleikar á því að ríkið leggi til fjármuni sem lán eða styrki til að mæta lækkun afurðaverðs haustið 2016 og nú í haust. Byggðastofnun skoði mál einstakra viðskiptavina og vinni með þeim að úrlausn. Einnig er lagt til að Byggðastofnun kanni þörf á endurfjármögnun lána sauðfjárbænda.

Tillögur til að ná jafnvægi á markaði snúast um að við fækkun sauðfjár verði horft til byggðasjónarmiða og í því sambandi til tillagna stofnunarinnar um svæðisbundinn stuðning við þau svæði sem eru háðust sauðfjárrækt sem atvinnugrein. Einnig að til að jafna framboð og eftirspurn á innanlandsmarkaði og minnka birgðir verði komið á tímabundinni útflutningsskyldu að ákveðnu hlutfalli og að aukinn verði byggðastuðningur við sauðfjárrækt í formi býlisstuðnings á skilgreindum svæðum.

Aðrar aðgerðir sem lagðar eru til varða stuðning við sauðfjárbændur á skilgreindum svæðum til að koma sér upp aukabúgreinum, svo sem ferðaþjónustu, heimavinnslu afurða og fleira og að ráðist verði í sérstakt kolefnisjöfnunarverkefni í samvinnu við sauðfjárbændur í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Þannig verði sauðfjárframleiðslan kolefnisjöfnuð og meira til með því að draga úr losun og auka bindingu til dæmis með skógrækt, endurheimt votlendis og uppgræðslu.

smari@bb.is

DEILA