Krían er komin í Arnarfjörð

Krían hefur látið á sér kræla.

Hópur af kríum mætti í Arnarfjörðinn í fyrradag. Á Þingeyrarvefnum segir að það hafi borið við klukkan ellefu fyrir hádegi og var það frúin á Eyri sem tók fagnandi móti þessum aufúsugesti. Þegar krían mætir á svæðið er eins og allt breyti um svip; svipsterk og fögur, fim og hávaðasöm. Annar gestur hefur verið að venja komur sínar á Eyri og Auðkúlu upp á síðkastið og er hann ekki sami aufúsugesturinn í æðarvörpum eins og krían, þó ekki sé nú leiðinlegt að bera hann augum, blessaðan konung fuglanna – haförninn.

Þó svo æðarfuglinn sé ekki orpinn, þá styttist í það og eru æðarbændur því fegnastir þegar konungurinn lætur ekki sjá sig í vörpunum. Þingeyrarvefsmenn binda miklar vonir við að krían nái að hrekja örninn á brott, þar sem hún ku vera einn helsti stuðningsmaður æðarfuglsins í verki, hugdjarfur holdgervingur orrustuþota í fuglaheiminum.
annska@bb.is
krian

DEILA